Ferðamaðurinn fundinn

Erlendi ferðamaðurinn sem leitað var að í Reykjadal í kvöld fannst heill á húfi laust fyrir klukkan ellefu í kvöld. Maðurinn gekk sjálfur fram á björgunarsveitarbíl á Ölkelduhálsi.

Maðurinn var afar þrekaður og kaldur og var fenginn sjúkrabíll til að flytja hann undir læknishendur.

Bíllinn sem maðurinn gekk fram á var staðsettur með blikkandi ljósum á Ölkelduhálsi, við enda stígsins sem liggur niður í Drottningarholu við Hveragerði.

Alþekkt er í leitartækni að nota ljós á bílum og öðrum tækjum sem “vita” þegar leitað er að fólki sem talið er vera á ferðinni. Í kvöld voru tveir slíkir “vitar”, með blá blikkandi ljós, settir upp – á Ölkelduhálsi og í Drottningarholu.

Um 60 björgunarsveitamenn og átta hundateymi tóku þátt í leitinni.