Ferðamaður sviptur ökuréttindum eftir hraðakstur

Sautján ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Sá sem hraðast ók var á þjóðvegi 1 við Hóla í Nesjum en hann var á 155 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.

Ökumaðurinn var ferðamaður frá Hong Kong og var hann sviptur ökurétti á staðnum, í tvo mánuði, auk þess sem hann greiddi 105 þúsund krónur í sekt. Ferðafélagi hans tók við akstrinum.

Krap var milli hjólfara á veginum þar sem maðurinn var stöðvaður og var hættan af þessu aksturslagi augljós, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Sextán aðrir ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu á tímabilinu og einn ökumaður var stöðvaður grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá var á ferðinni á Selfossi síðastliðinn miðvikudag.

Fyrri greinVelti ótryggðum bíl
Næsta greinFSu náði fram hefndum – Mikilvægur sigur Hamars