Ferðafélagið kaupir Húsadal

Ferðafélag Íslands hefur keypt skálasvæðið Húsadal í Þórsmörk af Kynnisferðum.

Samningar um þetta voru undirritaðir í morgun. Húsadalur er annað af tveimur skálasvæðum í Þórsmörk en Ferðafélag Íslands á og rekur skálasvæðið í Langadal.

Ferðafélagið kaupir allar eignir í Húsadal, meðal annars þjónustumiðstöð, svefnskála, snyrtiaðstöðu og aðrar byggingar. Bandalag íslenskra farfugla hefur leigst aðstöðuna í Húsadal síðustu ár og gerir út sumarið uns Ferðafélagið tekur við 1. október næstkomandi.

„Við sjáum margvíslegan ávinning með þessu,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins í samtali við mbl.is. Hann nefnir að Húsadalur sé áfangastaðurinn þegar genginn er svonefndur Laugavegur úr Landmannalaugum. Þúsundir gangi þá leið ári hverju en gangan tekur yfirleitt fjóra daga. Í dag á Ferðafélagið skála á fimm stöðum á og við Laugaveg – og nú bætist Húsadalur við.

„Húsadalurinn hefur í áranna rás verið afar vinsæll viðkomustaður Þórsmerkurfara; þangað er til dæmis mikið sótt af t.d. skólahópum og svo almennum ferðamönnum. Í rauninni sjáum við fyrir okkur að geta nálgast alveg nýjan hóp ferðamanna og það er okkur hjá Ferðafélaginu mikils virði. Þá er mat okkur að ná megi fram hagræðingu og samþættingu við starfsemin í Langadal. Þar er Skagfjörðsskáli sem er samofin sögu Ferðafélagsins. Allt ber þetta að sama brunni; Þórsmörk er okkur kær og við teljum skyldu okkur að byggja upp aðstöðu og veita þjónustu á svæðinu,“ segir Páll.

mbl.is greindi frá þessu