Ferðaþjónustuaðilar heimsóttu Hveragerði

Fyrr í október bauð Hveragerðisbær ferðaskrifstofum og skipuleggjendum í ferðaþjónustu í heimsókn í Sunnumörk.

Tilefnið var kynning á jarðskjálftasýningunni Skjálftinn 2008. Einnig var kynnis- og ferðamálafulltrúum sunnlenskra sveitarfélaga boðið. Um 70 manns komu á kynninguna og skoðuðu sýninguna.

Markaðsstofa Suðurlands stóð fyrir ferð um Suðurland sama dag og komu um 40 manns úr þeirri ferð og var mikil ánægja með heimsóknina í Hveragerði. Sigurdís Guðjónsdóttir kynnti starfsemi Upplýsingamiðstöðvarinnar og Sunnumarkar. Hún benti á alla þá kosti sem í boði eru í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk fyrir ferðamenn. Einnig kynnti hún starfsemi Hveragarðsins en þeir sem voru í ferðinni með Markaðsstofunni komu þar við á leið sinni.

Inga Jónsdóttir kynnti Listasafn Árnesinga og síðan kynnti Jóhanna Hjartardóttir sýninguna Skjálftinn 2008 en með opnun sýningarinnar eykst flóra afþreyingar fyrir ferðamenn. Einnig kom Jóhanna inn á spennandi möguleika til útivistar í bænum og nefndi gönguleiðir, Sundlaugina Laugaskarði og fyrirhugaða íþróttahöll sem mun rísa árið 2012.