Ferðaþjónustan kallar á fjölda nýrra starfsmanna

Mikil íbúafjölgun í Vestur-Skaftafellssýslu stafar fyrst og fremst af heilsársrekstri í ferðaþjónustu á svæðinu og fjölgun ferðamanna allt árið um kring.

Þetta segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, í samtali við vefinn.

Sunnlenska.is greindi frá því í síðustu viku að íbúar Suðurlands hefðu verið 22.222 þann 1. janúar síðastliðinn og hafa aldrei verið fleiri. Tíðrætt hefur verið um íbúafjölgunina í Árborg sem er tölulega mest á svæðinu en í prósentum talið er langmesta fjölgunin í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í Skaftárhreppi fjölgaði íbúum um 17,9% árið 2017, eða 85 íbúa og í Mýrdalshreppi fjölgaði um 12,6%, eða 71 íbúa. Ekki eru mörg ár síðan þessi tvö sveitarfélög glímdu við stöðuga fækkun íbúa ár frá ári.

40 íbúðir að bætast við í Mýrdalnum
Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir að gríðarleg uppbygging í sveitarfélaginu tengist nær öll ferðaþjónustunni með einum eða öðrum hætti.

„Hér er nýlega búið að opna 4.000 fermetra verslunarmiðstöð sem kallaði á fjölda nýrra starfsmanna. Búið er að bæta við hótelgistingu á flestum hótelum og gistiheimilum í sveitarfélaginu sem einnig kallar á aukin mannafla. Mikil aukning hefur einnig orðið í margskonar afþreyingu svo sem jöklaferðum, hestaferðum og fleira, sem allt kallar á aukinn mannafla,“ sagði Ásgeir í samtali við sunnlenska.is.

Uppbyggingin í Mýrdalnum heldur áfram en í Vík er verið að byggja nýtt hótel með um 80 herbergjum sem taka á í notkun í sumar og jafnvel er reiknað er með því að önnur hótelbygging af svipaðri stærð fari einnig af stað nú í vor.

„Þá er Olís að fara af stað með byggingu þjónustustöðvar, og á næstu dögum verður opnaður hér enn einn veitingastaðurinn sem um leið er brugghús. Þessi nýja starfsemi mun einnig kalla á aukinn starfsmannafjölda svo ég reikna með að fjölgunin haldi áfram á þessu ári,“ bætir Ásgeir við en til þess að mæta fjölguninni er verið að fara af stað með byggingu á um 40 íbúðum sem telst talsvert í ekki stærra sveitarfélagi.

Íbúum fækkar aftur síðar á þessu ári
Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru ástæður fjölgunarinnar aðrar en undanfarin tvö ár hefur fjölgað hlutfallslega mikið í sveitarfélaginu, um 14% árið 2016 og um 16,2% árið 2017. Alls bættust 96 íbúar við í sveitarfélaginu árið 2017.

„Það sem útskýrir býsna stóran hluta af fjölguninni er að erlendir starfsmenn við byggingu virkjunarinnar Búrfells 2 eru með tímabundið lögheimili í sveitarfélaginu. Við munum því miður sjá fækkun íbúa síðar á þessu ári,“ sagði Kristófer Tómasson, sveitarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Engu að síður verðum við vör við fjölgun íbúa af öðrum orsökum. Fjölgun í leik – og grunnskóla er talsverð. Það er mikið spurt eftir húsnæði um þessar mundir og þær eignir sem hafa verið settar á sölu hafa selst hratt að undanförnu,“ segir Kristófer ennfremur.

Fyrri greinSamið áfram um uppbyggingu reiðvega
Næsta greinElvar og Teitur inn í A-landsliðið