Ferðaþjónustan bætir hag sveitarfélagsins

Hraðri uppbyggingu í ferðaþjónustu í Mýrdalnum fylgja vaxtarverkir en mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í Vík þrátt fyrir að byggðar hafi verið tíu nýjar íbúðir í ár.

Þetta segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri, í samtali við Sunnlenska.

„Verið er að vinna í nýju deiliskipulagi fyrir þorpið í Vík og eins er verið að skoða að bæta við nýjum lóðum undir atvinnuhúsnæði, séstaklega verslunar og þjónustuhúsnæði,“ segir sveitarstjórinn.

Ásgeir segir að uppbyggingin í sveitarfélaginu, sérstaklega í ferðaþjónustunni, hafi jákvæð áhrif á afkomu sveitarsjóðs og hefur afkoman verið ágæt bæði 2012 og 2014.

„Þrátt fyrir að ekki hafi verið um að ræða verulega íbúafjölgun þá er greinilegt að tekjur íbúa hafa aukist með auknum umsvifum í ferðaþjónustunni og við framkvæmdir í sveitarfélaginu,“ segir Ásgeir.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, það er A og B hluta sveitarsjóðs, var á árinu 2013 um 44,3 milljónir króna og 25,6 milljónir árið 2014.

„Þetta er verulegur viðsnúningur frá fyrri árum þegar sveitarfélagið var rekið rétt um núllið eða með talsverðum halla,“ segir Ásgeir.

Fyrri greinSunnudags sælgæti
Næsta greinVill opna kaffihús í Gimli