Fengu steypu frá Eyjum

Vegna bilunar í steypustöð í Vík í Mýrdal brugðu menn á það ráð að kaupa steypu frá Vestmannaeyjum í gær.

„Það bilaði steypustöð sem er hér í Vík. Selfoss er næstur en við vorum í rauninni fljótari að fá steypuna frá Eyjum,“ sagði Guðmundur Viðarsson frá Skálakoti undir Eyjafjöllum.

Hann var í gær að steypa í Vík í Mýrdal. Verið er að breyta gömlu húsi til að stækka Hótel Lunda um 12 herbergi. Guðmundur er bóndi og einn þeirra sem eiga og reka hótelið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Tveir steypubílar komu með steypuna í Landeyjahöfn í gær og óku austur í Mýrdal. Guðmundur taldi að það kæmi ekkert síður út peningalega að sækja steypuna til Eyja en Selfoss. Hann taldi víst að þetta væri í fyrsta sinn sem steypa væri flutt úr Vestmannaeyjum til lands. „Ef höfnin helst opin er þetta ekkert vandamál,“ sagði Guðmundur. „Bíllinn bara keyrir um borð og 30 mínútum seinna er hann kominn á fastalandið.“

Fyrri greinEyjafjallajökull á topp 10
Næsta greinEnn ekki útséð um tjón