Fengu bíl framúr sér við framúrakstur

Tveir ungir piltar sluppu ómeiddir úr slysalegri bílveltu á Suðurlandsvegi við Kjartansstaði um kl. 20 í kvöld.

Ökumaður bílsins var að reyna framúrakstur og hafði fengið merki um að taka framúr frá ökumanninum fyrir framan sig. Í sömu mund tók þriðji bíllinn framúr bíl piltanna og fipaði það ökumanninn.

Hann missti stjórn á bílnum sem valt eina veltu út fyrir veg. Bíllinn er ónýtur og piltarnir misstu af þrettándagleðinni í Vestmannaeyjum vegna þessa – en hrósa happi yfir að vera óslasaðir.

Önnur bílvelta varð í umdæmi Selfosslögreglunnar í hádeginu í dag í Hveradölum á Hellisheiði. Ökumaður afþakkaði aðstoð sjúkrabíls og lögreglu en hann missti stjórn á bílnum í hálku.

Klukkutíma fyrr varð annað slys í Hveradölum þar sem ökumaður missti stjórn á bíl sínum og ók utan í vegrið.

Vegurinn yfir Hellisheiði var þurr og aðstæður góðar en á stuttum kafla í Hveradölum myndast gjarnan ísing á veginum vegna gufu sem yfir hann leggur.