Felur í sér verulegt skattalegt hagræði

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur falið bæjarstjóra að stofna Fasteignafélag Hveragerðisbæjar ehf. Tilgangur félagsins er bygging, eignarhald, rekstur og útleiga á fasteignum í þágu íbúa í Hveragerði og skyldur rekstur.

Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra er með félaginu verið að búa í haginn fyrir kaup á loftbornu íþróttahúsi við Hamarsvöllinn. Með því að stofna sérstakt félag utan um kaupin verður verulegt skattalegt hagræði sem felst í því að virðisaukaskattur af kaupunum dreifist á næstu 20 ár í stað þess að bæjarfélagið þurfi að leggja út fyrir því öllu í einu. Þar sem húsið kostar 290 milljónir króna er augljóst að það skiptir hreppinn miklu að þurfa ekki að greiða nánast einn fjórða af því verði ofan á kaupin í upphafi.

Gert er ráð fyrir að aðrar nýbyggingar sem nýtist íbúum bæjarins verði settar undir Fasteignafélagið af sömu ástæðum. Á það við um íþrótta- og skólamannvirki. Að sögn Aldísar verður reksturinn í höndum skrifstofu bæjarins og engin aukakostnaður áætlaður vegna þessa nýja fasteignafélags.

Fyrri greinHagnaður fyrir skatta 37 milljónir
Næsta greinSkoða öldungalandsmót