Féll um þrjá metra ofan af húsþaki

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlmaður féll úr um þriggja metra hæð ofan af þaki á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu síðastliðinn laugardag.

Maðurinn var einn á ferð og hringdi sjálfur eftir aðstoð og voru björgunarsveit og nágranni mannsins fengin strax á vettvang til aðstoðar ásamt sjúkraflutningsmönnum.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, hann var kaldur og verkjaður en ekki er vitað nánar um meiðsl hans, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Tvö önnur slys voru tilkynnt til lögreglu í síðustu viku. Á laugardag datt rúmlega sjötugur maður utanhúss í Hveragerði og handleggsbrotnaði og á föstudag féll maður af hestbaki í reiðhöll í Rangárþingi ytra. Mennirnir voru báðir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

Fyrri greinSunnlenska.is 10 ára í dag
Næsta greinSkrifað undir samning um breikkun Suðurlandsvegar