Féll í 96°C heitt vatn

Í ljós hefur komið við rannsókn slyssins í Gömlu lauginni í Hrunamannahreppi þar sem fullorðinn erlendur karlmaður brenndist illa að hann féll í þró sem í var um 96°C heitt vatn.

Aðdragandinn mun hafa verið með þeim hætti að maðurinn fór upp úr lauginni og gekk nokkra metra að timburgöngustíg. Þegar hann steig upp á hann hrasaði hann og féll í þróna.

Manninum tókst að koma sér upp af sjálfsdáðum en hafði þá verið í nokkrar sekúndur í nær sjóðandi vatninu sem var um 25 sentimetra djúpt.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að ekki sé á þessari stundu ljóst um ástand mannsins sem mun vera alvarlegt.

TENGDAR FRÉTTIR:
Brenndist alvarlega við Gömlu laugina