Féll af þaki sumarbústaðar

Maður féll af þaki sumarbústaðar við Árbakka í Landssveit á þriðjudag í síðustu viku að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli.

Talið er að maðurinn hafi ekki slasast alvarlega, en hann var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur til aðhlynningar.

Lögreglan viðhafði mikið eftirlit með ökumönnum við réttaböll í umdæminu um síðustu helgi. Einnig var nokkuð um það að menn kæmu til lögreglunnar og fengju að blása til að kanna með ástand sitt.

Tveir ökumenn fengu falleinkunn og fóru því ekki af stað á bílum sínum.