Félagsmiðstöðin Zelsíuz hlaut Íslensku menntaverðlaunin

Gunnar og Arnar Helgi á Bessastöðum í kvöld ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Sigurði Inga Jóhannssyni. Ljósmynd/Aðsend

Samstarf velferðarþjónustu Árborgar og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz í Árborg hlaut í kvöld Íslensku menntaverðlaunin 2023 í flokknum framúrskarandi þróunarverkefni.

Gunnar E. Sigurbjörnsson, deildarstjóri frístundaþjónustu Árborgar og Arnar Helgi Magnússon, ráðgjafi hjá velferðarþjónustu Árborgar, tóku við verðlaununum úr hendi Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en þetta er í fyrsta skipti sem félagsmiðstöð hlýtur þessi verðlaun.

Verkefnið hófst árið 2016 og byggir á snemmtækri íhlutun sem miðar að því að börn, sem þurfa félagslegan stuðning, fái aðstoð sem fyrst til að koma í veg fyrir að vandi þeirra aukist.

Eitt af markmiðum verkefnisins er að fá krakkana til að taka þátt og mæta reglulega í félagsmiðstöðina. Frá því að verkefnið hófst árið 2016 hafa ríflega 70% barna eða unglinga sem sótt hafa úrræðið skilað sér inn í frekara starf félagsmiðstöðvarinnar.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna fjölþættan ávinning og undirstrika mikilvægi félagsmiðstöðvarstarfs fyrir börn sem standa höllum fæti. Verkefnið er dæmi um farsælt samstarfsverkefni í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu fyrir farsæld barna og er framúrskarandi vitnisburður um þann ávinning sem hlýst af samstarfi ólíkra stofnana, á borð við félagsmiðstöð annars vegar og barnavernd innan velferðarþjónustu hins vegar.

Frístundamiðstöðin Bungubrekka í Hveragerði var tilnefnd í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, fyrir fagmennsku í frístundastarfi, metnaðarfulla innleiðingu á gæðaviðmiðum og miðlun á starfi sínu innan sem utan Hveragerðis. Þau verðlaun komu í hlut Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluaðferða og leiðsagnarnáms.

Fyrri greinÖruggt hjá Hamri gegn botnliðinu
Næsta greinAllt til reiðu í Vallaskóla komi til rýmingar