Félagsmálaráðherra framsögumaður á aðalfundi

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, verður framsögumaður á aðalfundi Þroskahjálpar á Suðurlandi þriðjudagskvöldið 3. maí næstkomandi.

Á fundinum ræðir ráðherra stöðu málaflokks fatlaðra eftir samkomulag ríkis og sveitarfélaga á nýliðnum vetri.

Í desembermánuði undirrituðu fulltrúar sveitarfélaga og ráðherrar fyrir hönd ríkissjóðs nýtt samkomulag sem felur í sér endanlega niðurstöðu um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Sem kunnugt er tóku sveitarfélög landsins málefni fatlaðra yfir fyrir 5 árum.

Fram hefur komið í fréttum að síðan þá hefur hægt miðað í uppbyggingu búsetuúrræða fatlaðra og hafa sveitarfélögin borið við fjárskorti. Stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi hefur þráfaldlega bent á að síðustu 25 ár hefur engin aukning orðið á úrræðum fyrir þá sem þurfa sólarhringsþjónustu og neyð fatlaðra í héraði því farið vaxandi.

Í tilkynningu frá Þroskahjálp á Suðurlandi segir að það sé von stjórnar að það samkomulag sem nú hefur náðs um endanlega fjármögnun feli í sér fyrirheit um uppbyggingu í málaflokknum.

Fyrri greinGnúpverjar Íslandsmeistarar í 3. deild
Næsta greinVel heppnuð firmakeppni hjá Rangárvalladeild Geysis