Félagarnir búnir að raka af sér hárið líka

Janus Breki Kristinsson er átta ára peyji í þriðja bekk í Grunnskólanum í Hveragerði sem haldinn er Alopeciu, sjúkdómi sem rekja má til sjálfsofnæmis. Helsta merki sjúkdómsins er að hann er búinn að tapa mestu af hári sínu, og hefur það gerst á fáeinum mánuðum.

Sex vinir Janusar fóru fyrir skömmu með honum á hárgreiðslustofuna Ópus í Hveragerði og létu ýmist snoða sig eða krúnuraka, honum til stuðnings. Uppátæki félaga Janusar var vel tekið af honum og lét hann einnig krúnuraka sig og er nú alveg hárlaus á höfðinu.

Gerðist á fjórum dögum
Foreldrar Janusar, þau Berglind Kvaran Ævarsdóttir, og Kristinn H. Runólfsson, tóku eftir því í nóvember að hár var byrjað að detta af syni þeirra, og á aðeins fjórum dögum var það að stórum hluta farið. Augabrúnir og augnhár eru líka horfin, og Berglind móðir Janusar segir ekki víst hvort og þá hvenær hárin vaxi aftur.

„Um leið og við urðum vör við þetta fórum við til læknis í blóðrannsóknir og þaðan til húðsjúkdómalæknis sem rakti þetta til þessa sjúkdóms, sem á íslensku er oftast nefndur blettaskalli,“ segir Berglind. Í framhaldi hafi þau leitað til annars sérfræðings sem taldi sjúkdóminn hafa blundað í Janusi í hið minnsta fimm ár, og rakti það til þess að yfir þann tíma hafi neglurnar á stráknum verið hrufóttar og skrítnar, að því er Berglind segir. Hún segir að hann sé að öðru leyti mjög hraustur.

Í upphafi kvíðin
Berglind segir Janus hafa vissulega orðið nokkuð kvíðafullan útaf hármissinum. „Það var nú ekki síst vegna þess að hann var svo snobbaður með hárið, vildi hafa það sítt,“ segir Berglind. Þá hafi hann sýnt þess merki að hann vildi ekki fara í sund og slíkt, vegna útlits síns.

Berglind segir hinsvegar börnin í skólanum hafa sýnt þessu mikinn skilning, þótt þau hefðu af honum áhyggjur til að byrja með. „Við ræddum þessi mál við foreldrana og þau svo við sín börn og þau hafa frá því tekið þessu með ró,“ segir hún.

Það var svo nýverið sem ein móðir vinar Janusar stakk upp á því að félagar hans létu raka af sér hárið til að sýna honum samstöðu. Fóru sex félagar hans með honum á stofuna og þær Erla Kristín og Jóhanna á Ópus sáu um klippinguna. Í kjölfarið fóru þeir í Hoflandsetrið þar sem Linda gaf þeim pizzur. Berglind segir að Janus hafi verið ákaflega ánægður með uppátæki félaga sinna, sem skondrast með honum um ganga skólans skælbrosandi og sköllóttir.


Eric Máni, Halldór, Breki, Thoralf, Gabríel Elí, Janus Breki og Magnús Gunnar í pizzuveislu á Hoflandsetrinu.

Fyrri greinHSK sveitir unnu þrjá titla af fjórum
Næsta greinStórvirkar vélar moka upp úr Land­eyja­höfn