Félagar sýni samstöðu í þeirri orrahríð sem framundan er

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags verður í kvöld klukkan 18:00 í húsnæði stéttarfélaganna að Austurvegi 56 á Selfossi. Félagar eru eindregið hvattir til að fjölmenna.

Stjórn félagsins verður á fundinum og mun Halldóra Sigr. Sveinsdóttir, formaður, fara yfir stöðuna og útskýra ástæður sínar fyrir að skrifa ekki undir þann samning sem nú er verið að leggja í dóm félagsmanna.

Í tilkynningu frá Bárunni, stéttarfélagi segir að í ljósi umræðunnar undanfarið þá telur stjórn félagsins nauðsynlegt að gefa félagsmönnum tækifæri til að ræða beint við stjórn og formann.

Töluverðar deilur hafa risið innan félaga Alþýðusambandsins um kosti og galla samningsins. Fram hefur komið í fjölmiðlum að formaður taldi ekki nógu langt gengið í að sækja kjarabætur til þeirra sem lægstu launin hafa og niðurstöðuna fjarri því sem umboð hennar náði til. Einnig hafa verið að birtast fréttir að hækkunum á vöru og þjónustu þó einnig hafi komið fram að sumar þeirra hækkana munu dregnar til baka að hluta eða öllu leiti. Þetta þarf að ræða.

Formaður mun útskýra ýmislegt sem sagt hefur verið í hita leiksins og leita eftir skoðunum fundarmanna um næstu skref.

Félagar eru eindregið hvattir til að fjölmenna og sýna með því þá samstöðu sem félaginu er nauðsynleg í þeirri orrahríð sem nú stendur og framundan er. Léttar veitingar í boði.

Fyrri greinUndir áhrifum í umferðinni á ótryggðum bíl
Næsta greinMikill erill í sjúkraflutningum