Fékk norræn verðlaun fyrir MA ritgerð

„Þegar maður gerir rannsókn vonast maður til að niðurstöðurnar komi til með að nýtast á einhvern hátt. Fyrir mér eru þessi verðlaun staðfesting á því að niðurstöðurnar séu taldar líklegar til að nýtast vel í barnaverndarstarfi, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á hinum Norðurlöndunum en fyrir mér er það mesta viðurkenningin,“ segir Selfyssingurinn Halla Dröfn Jónsdóttir sem hlaut nýverið norræn verðlaun fyrir MA ritgerð sína í félagsráðgjöf.

Norrænu samtökin Nordisk forening mot barnemishandling og omsorgssvikt (NFBO) veita verðlaun fyrir MA-ritgerð, sem tengist baráttumálum samtakanna, á ráðstefnu þeirra sem haldin er annað hvert ár. Samtökin vinna með ofbeldi og vanrækslu barna og fyrirbyggjandi aðgerðir eða mögulegar leiðir til að aðstoða börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og vanrækslu.

Ritgerð Höllu Drafnar, ber heitið Stuðningsúrræði starfsmanna barnaverndar. „Þetta er í raun bara það sem hefur alltaf verið gert. Hún fjallar um á hvaða hátt barnaverndarstarfsmenn vinna með börnum og fjölskyldum þeirra og hvaða aðferðafræði og kenningar þeir nýta helst við vinnuna. Leiðbeinandi Höllu Drafnar var Anni G. Haugen, lektor við Félagsráðgjafardeild.

„Það er hlutverk barnaverndar að grípa inn í ef börn búa ekki við nógu góðar aðstæður og veita börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynlegan stuðning. Barnaverndin á líka að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra þegar börn eru sjálf að stefna heilsu sinni eða þroska í hættu með einhverjum hætti,“ segir Halla Dröfn sem lauk MA-námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf árið 2015.

„Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í barnaverndarmálum og beinn stuðningur frá starfsmönnum barnaverndarnefnda eitt elsta og rótgrónasta stuðningsúrræðið innan barnaverndar. Þrátt fyrir þetta er lítið vitað um árangur og eðli þess stuðnings sem barnaverndarstarfsmaður veitir og engar íslenskar rannsóknir höfðu verið gerðar í tengslum við þetta viðfangsefni þegar rannsóknin var framkvæmd,“ segir Halla Dröfn sem starfar í dag sem félagsráðgjafi hjá Skóla- og Velferðarþjónustu Árnesþings en starfsstöð hennar er í Hveragerði þar sem hún sinnir félagslegri ráðgjöf, fjárhagsaðstoð og barnavernd.

Halla Dröfn segir að áhuginn á efninu hafi kviknað eftir að hafa séð niðurstöður úr megindlegri rannsókn Anniar Haugen um úrræði í barnavernd. „Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að sá stuðningur sem barnaverndarstarfsmaður veitir sé umfangsmeiri en áður hefur komið fram. Eftir að hafa starfað á sviði barnaverndar í nokkur ár þótti mér áhugavert að skoða nánar á hvern hátt barnaverndarstarfsmenn vinna með börnum og fjölskyldum þeirra en megintilgangur rannsóknarinnar var að öðlast betri skilning á daglegu starfi barnaverndarstarfsmanna,“ segir Halla Dröfn að lokum.

Halla Dröfn mun taka á móti verðlaunum sínum á Norrænni ráðstefnu NFBO sem er haldin í Stokkhólmi dagana 22.-25. maí. Þar mun hún jafnframt flytja erindi um rannsókn sína.

Fyrri greinFjóla Signý ein af ungleiðtogum Evrópu
Næsta grein„Risastórt framlag frá liðinu í heild sinni“