Fékk heitan drykk í þyrlunni

Þyrlur Landhelgisgæslunnar sinntu tveimur útköllum á Suðurlandi á sama tíma í gærkvöldi, á Selfossi og í Skaftárhreppi.

Stjórnstöð Gæslunnar barst á níunda tímanum í gærkvöld beiðni frá lögreglu um aðstoð þyrlu vegna fransks skátahóps sem kominn voru í sjálfheldu á sandeyrum í Skaftá, nærri Leiðólfsfelli.

TF-GNA fór í loftið klukkan 20:43. Þegar þyrlan var komin suður undir Heklurætur var henni snúið við vegna alvarlegs slyss á Selfossi þar sem ungur maður hafði lent undir bíl. Þyrlan lenti á flugvellinum við Selfoss um klukkan hálftíu en þar beið sjúkrabíll með hinn slasaða. Fáeinum mínútum síðar var þyrlan lögð af stað til Reykjavíkur og lenti hún við Landspítalann á Fossvogi klukkan 21:50.

Á meðan þessu fór fram var önnur þyrla gerð klár til að aðstoða frönsku skátana í Skaftá. TF-LIF fór í loftið laust fyrir klukkan tíu. Á leiðinni bárust upplýsingar um að búið væri að koma öllum úr hópnum í öruggt skjól, fyrir utan einn sem sat enn fastur á sandeyri.

Sá hafði lent í ánni og var því orðinn mjög kaldur. Um klukkan hálfellefu lenti þyrlan á eyrinni í Skaftá og sigmaður þyrlunnar fór út til mannsins og studdi hann inn í vél. Var hann vel á sig kominn þrátt fyrir að vera illa klæddur. Búið var að hita rými þyrlunnar vel og var manninum gefinn heitur drykkur.

Þyrlan tók svo á loft og lenti síðan á árbakkanum vestanverðum þar sem lögregla og sjúkrabíll biðu. Var maðurinn fluttur með sjúkrabílnum á Kirkjubæjarklaustur þangað sem félagar hans voru komnir.

Fyrri greinÁ gjörgæslu eftir slys á gámasvæðinu
Næsta greinGunnar sýnir í Listagjánni