Fékk góðar móttökur á Selfossi

Guðný Sigurðardóttir kom á Selfoss um kl. 13:30 í dag eftir göngu frá Landspítalanum við Hringbraut en hún lagði þaðan upp á miðnætti.

Áheita­gang­an er hald­in til styrkt­ar Birtu — Lands­sam­taka for­eldra/​​for­ráðamanna sem misst hafa börn/​​ung­menni með skyndi­leg­um hætti. Guðný gengur í minningu dóttursonar síns, Vil­helms Þórs, sem drukknaði í Sundhöll Sel­foss þann 21. maí 2011. Hann var end­ur­lífgaður og flutt­ur með sjúkra­bíl á Land­spít­al­ann við Hring­braut, þar sem hann lést dag­inn eft­ir.

Fjöldi fólks hefur slegist í hópinn og gengið með Guðnýju en um eitthundrað manns gengu með henni síðasta spölinn á Selfoss. Hún var komin í Hveragerði fyrir klukkan ellefu í morgun og hópurinn stoppaði síðan við Kögunarhól í Ölfusi þar sem sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur á Selfossi, var með stutta hugvekju.

Við komuna í Sundhöll Selfoss fékk Guðný blóm frá bæjarstjórninni en í fyrramálið mun bæjarráð samþykkja myndarlegan styrk til Birtu, samtakanna, sem Guðný er að safna fyrir. Auk þess var gönguhópnum boðið frítt í sund.

Nú tekur við sundmaraþon hjá Guðnýju, en hún ætlar að synda 286 ferðir, eina fyr­ir hverja viku sem Vil­helm lifði. Guðný áætlar að sundið muni taka um fjóra klukkutíma.

Hægt er að hringja í núm­erið 901-5050 til að styðja við Birtu með þúsund króna fram­lagi, en einnig er hægt að leggja frjáls fram­lög inn á reikn­ing: 1169-05-1100, kt. 231261-2579.

Fyrri greinOddastefna á laugardag
Næsta greinGuðni kom til bjargar