Fékk þriggja mánaða dóm fyrir líkamsárás

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, en hann kjálkabraut einn mann og beit framan af nefi annars á Laugarvatni í lok desember 2012.

Maðurinn kom á heimili annars brotaþolans að kvöldi 29. desember í fyrra til að ræða um samskipti hans við kærustuna sína. Í kjölfarið brutust út átök þar sem maðurinn kýldi húsráðanda hnefahöggi í andlitið svo að hann tvíkjálkabrotnaði auk þess að bíta hann í brjóstið svo að úr blæddi þegar húsráðandi hélt honum niðri. Annar maður sem var í húsinu blandaðist í átökin og var hann bitinn í nefið þannig að neðsti hluti þess fór af.

Mennirnir voru illa leiknir eftir átökin og mikið blæddi úr áverkum þeirra. Þegar lögregla var á vettvangi hafði ákærði samband við hana og kvaðst vera í felum, en samþykkti að ræða við lögregluna. Segir í frumskýrslu að ákærða hafi verið mikið niðri fyrir og undir sýnilegum áhrifum áfengis.

Ákærði byggði vörn sína á því að hann hafi unnið verknaðinn í sjálfsvörn en héraðsdómur féllst hins vegar ekki á það.

Auk þess að fá þriggja mánaða fangelsisdóm var manninum gert að greiða brotaþolunum samtals 400.000 krónur í miskabætur og tæplega 800.000 í sakarkostnað.

TENGDAR FRÉTTIR:
Kjálkabraut einn og beit framan af nefi annars

Fyrri greinMá í Háholti reistur minnisvarði
Næsta greinSigurður Ingi ræsir mjólkur-pökkunarvélina