Fé brann inni í Ásahreppi

Ljósmynd/Brunavarnir Rangárvallasýslu

Mikið tjón varð þegar hlaða og fjárhús á Syðri-Hömrum í Ásahreppi urðu eldi að bráð í gærkvöldi. Brunavarnir Rangárvallasýslu börðust við eldinn fram á nótt með liðsauka frá Brunavörnum Árnessýslu.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn klukkan 20:55 í gærkvöldi og þegar slökkviliðið kom á vettvang var hlaðan alelda, stafnanna á milli.

„Þetta er gömul hlaða með sambyggðum tveimur fjárhúsum. Þegar við komum var mikill eldur í hlöðunni og kominn eldur í fjárhúsin. Við náðum að bjarga tuttugu kindum út úr öðru húsinu en féð í hinu húsinu brann inni,“ sagði Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is, en um 35 fjár voru í hinu húsinu.

Um 40 manns börðust við eldinn og segir Leifur að slökkvistarf hafi gengið ágætlega þó að langan tíma hafi tekið að slökkva í glóðarhreiðrum.

„Við hættum klukkan hálf tvö og þá rauk úr öllu og húsið var hrunið. Lögreglan stóð vaktina eftir það og við vorum kallaðir aftur út um klukkan þrjú og svo aftur klukkan tíu í morgun. Það lágu járnaplötur yfir rústunum og það var töluverð skán í gólfinu þar sem leynst getur glóð og kraumað lengi. Hluti hússins var líka einangraður með sagi sem gerir þetta erfitt og það getur tekið langan tíma að komast fyrir allar glæður,“ bætir Leifur við.

Stillt og kalt var í veðri, þannig að slökkvistarf gekk ágætlega fyrir utan að vatnsöflun var erfið og tímafrek, þar sem ár og lækir voru frosnir. Aka þurfti eftir vatni á Hellu, sem er í 16 kílómetra fjarlægð.

„Það er altjón á hlöðunni og eldra fjárhúsinu en við náðum að bjarga einhverju á nýrra húsinu. Það gerði okkur líka erfitt fyrir að nokkur hundruð metrum frá var fjós, fullt af kúm og þangað lagði mikinn reyk. Þannig að við lögðum áherslu á að slökkva grófasta hlutann áður en við gátum reykræst fjósið. Það fór vel og var ekki í eldhættu en maður er alltaf smeykur þegar dýr eru nálægt því þau eru mun viðkvæmari fyrir reyknum en við,“ sagði Leifur að lokum.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú upptök eldsins.

Fyrri greinÞorvaldur Gauti bætti 36 ára gamalt met
Næsta greinHvergerðingar kátir í Gjánni