,,Fáum vonandi annað en mosa”

Íbúar Skaftárhrepps bíða eftir afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun vegna virkjanakosta.

Tvær virkjanir eru á teikniborðinu í Skaftárhreppi; Hólmsárvirkjun og Búlandsvirkjun. Að sögn Guðmundar Inga Ingasonar, oddvita Skaftárhrepps, skiptir miklu fyrir sveitarfélagið ef önnur eða báðar virkjanir verða að veruleika.

Niðurstaða rammaáætlunar var að setja virkjanirnar í biðflokk en Guðmundur Ingi sagðist vonast til þess að Alþingi setti þær í nýtingarflokk.

Ljóst sé að tekjur af virkjununum gætu skipt miklu auk þeirra tekna sem fylgdu framkvæmdunum. Talið er að fasteignagjöld af einni virkjun gætu numið 55 milljónum króna á ári sem Guðmundur Ingi sagði að gæti skipt sköpum fyrir sveitarfélagið.

,,Það væri óskandi ef við fengjum eitthvað annað en mosa,” sagði Guðmundur Ingi.