Fataskiptimarkaður í Fjölheimum

Laufey Guðmundsdóttir (t.v.) og Ingunn Jónsdóttir eru meðal þeirra sem standa að fataskiptimarkaðnum í Fjölheimum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 18:30 verður haldinn fataskiptimarkaður í Fjölheimum á Selfossi.

„Ég er verkefnastjóri fyrir áhersluverkefni á vegum SASS sem kallast „Umhverfis Suðurland“ þar sem við erum að fjalla um umhverfismál frá öllum hliðum og reyna að vekja Sunnlendinga til góðra og umhverfisvænna verka. Og þar er enginn undanskilinn, allra síst ég,“ segir Ingunn Jónsdóttir, sem sér um að skipuleggja fataskiptimarkaðinn, í samtali við sunnlenska.is.

„Við gefum út mánaðarlegt fréttabréf með þema fyrir hvern mánuð og í nóvember erum við að leggja áherslu á „notað og endurnýtt“ og hvetja fólk og félagasamtök, leik- og grunnskóla til þess að standa fyrir fataskiptum. En þar sem verkefnið er kannski ekki endilega sjálft að standa fyrir viðburðum heldur hvetja fólk til þátttöku þá set ég á mig hatt „formanns starfsmannafélags Fjölheima“ og saman blásum við til þessa fataskiptimarkaðs þar,“ segir Ingunn.

Aðspurð segir Ingunn ekki hafa skipulagt markað sem þennan áður og ekki heldur farið á slíkan markað. „En ég hef verið dugleg að fara með föt sem við erum hætt að nota í Rauða krossinn og svo höfum við systur og vinkonur verið duglegar að láta föt ganga á milli okkar.“

Ekki nauðsynlegt að koma með föt
„Fataskiptimarkaður gengur út á að fólk kemur saman og skiptist á fötum. Fólk getur komið með fatnað sem það er hætt að nota og lagt inn og tekið í staðinn út nýjan/annan fatnað. Engar greiðslur fara fram, eingöngu skipti. Og það er hvorki nauðsynlegt að koma með eða taka út föt – annað af hvoru er alveg í lagi, það er bara leggja inn eða bara taka út,“ segir Ingunn.

„Markaðurinn er fyrir alla og við leggjum sérstaka áherslu á barnaföt og skó en það eru margir sem sitja uppi með heilar flíkur sem barnið er vaxið upp úr. Ég geri ráð fyrir að margir séu farnir að huga að jólafötum sig og börnin sín og það er upplagt að kíkja við á fataskiptimarkaðinum áður en það hendir sér í að kaupa allt nýtt. Með þessu er stuðlað að endurnýtingu fatnaðar með það að leiðarljósi að draga úr neyslu og auka meðvitund um umhverfis áhrif fatasóunar,“ segir Ingunn.

„Við hvetjum fólk til að mæta í Fjölheima kl.18:30 þann 15. nóvember og annað hvort leggja eitthvað inn á markaðinn eða sjá hvort það finnur ekki eitthvað sem því líkar nema hvor tveggja sé. Það þarf ekkert að skrá sig neitt fyrirfram og engar skuldbindingar. Það sem eftir verður þegar markaðnum lýkur verður svo fært Rauða krossinum,“ segir Ingunn.

„Ég vil gjarnan hvetja fólk til þess að kynna sér verkefnið „Umhverfis Suðurland“ og endilega skrá sig á póstlistann og líka við Facebook síðuna,“ segir Ingunn að lokum.

Fyrri greinNíu sunnlensk verkefni fengu samfélagsstyrk
Næsta greinNaumt tap á heimavelli