Rétt fyrir hálf ellefu í gærkvöldi barst Hjálparsveitinni Tintron í Grímsnesi og Björgunarsveitinni Ingunni á Laugarvatni útkall vegna bíls sem var fastur á Hlöðuvallavegi á Miðdalsfjalli, fyrir innan Gullkistu, og var jafnvel talin hætta á að bíllinn gæti oltið.
Þegar bíllinn hafði verið losaður var útkallinu ekki lokið því þeir sem þarna voru á ferðinni voru á leiðinni inn fyrir Hlöðufell að aðstoða son annars mannsins sem þarna var staddur.
Faðirinn fékk því far með björgunarsveitunum á meðan félagi hans snéri við og hélt heim. Seinni bíllinn fannst svo á línuvegi við Sköflung, norðan Hlöðufells og var hann losaður úr festunni og síðan fylgt eftir Skjaldbreiðarvegi að Uxahryggjum og niður á Þingvelli.
Björgunarsveitirnar voru komnar aftur í hús um klukkan 3 í nótt.

