Við ákvörðun um lækkun fasteignaskattsprósentu og vatnsgjalds afréð bæjarstjórn Árborgar að horfa til lífskjarasamnings aðila almenna vinnumarkaðarins sem undirritaður var í apríl síðastliðnum. Þannig var fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækkaður um 7,5%, á fundi bæjarstjórnar Árborgar þann 11. desember, til að bregðast við hækkunum á fasteignamati. Vatnsgjald var lækkað um 2,5%.
Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði var einnig lækkaður. Sú lækkun var 3% og álagningin fer því niður í 1,6%. Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að þetta sé í fyrsta sinn í sögu sveitarfélagsins sem að fasteignaskattsprósenta af atvinnuhúsnæði lækkar, en hún hefur verið óbreytt frá stofnun sveitarfélagsins árið 1998.
Fasteignaskattsprósenta á íbúðarhúsnæði var því lækkuð úr 0,275% af fasteignamati í 0,2544%, fasteignaskattsprósenta á atvinnuhúsnæði var lækkuð úr 1,65% í 1,60% og vatnsgjald úr 0,1765% af fasteignamati í 0,1721%.
Sorphirða hækkar um 5% og nýtt útboð á næsta ári
Gjaldskrárbreytingar vegna þjónustu taka almennt mið af forsendum lífskjarasamnings og bæjarstjórn samþykkti því að takmarka hækkun á þjónustugjaldskrám Árborgar við 2,5% þann 1. janúar næstkomandi.
Eina frávikið er að gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar hækkar um 5% til að tryggja að málaflokkurinn standi undir kostnaði. Sveitarfélagið mun bjóða út alla þætti sorphirðu og förgunar/úrvinnslu á næsta ári og einnig leita annarra leiða í þágu umhverfis og til hagsbóta fyrir íbúa. Vonast sveitarfélagið til þess að í framhaldinu lækki gjaldskrár vegna sorpmála.
Yfirlit yfir breytingar á gjaldskrám Árborgar:
1) Gjaldskrá Selfossveitna 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
2) Gjaldskrá fyrir frístundaheimili í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
3) Gjaldskrá fyrir leikskóla í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
4) Gjaldskrá fyrir fæði í grunnskólum í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
5) Gjaldskrá fyrir hundahald í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
6) Gjaldskrá fyrir kattahald í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
7) Gjaldskrá fyrir bókasöfn Árborgar 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
8) Gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
9) Gjaldskrá fyrir leigubílaakstur aldraðra í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
10) Gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
11) Gjaldskrá fyrir frístundaklúbbinn í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
12) Gjaldskrá fyrir Grænumörk 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
13) Gjaldskrá vegna afnota á húseigna í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
14) Gjaldskrá vegna fráveitu (tæming rotþróa) í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 2,5%
15) Gjaldskrá fyrir sorphirðu og gámasvæði í Árborg 2020 – Hækkunin nemur 5% fyrir sorphirðugjöld og 2,5% á gámasvæði í Árborg.