„Fasteignamarkaðurinn á Selfossi er mjög líflegur“

Halldór Kristján Sigurðsson, fasteignasali hjá Stakfelli, í einni af nýju íbúðunum í Álalæk 5-7. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fasteignasalan Stakfell afhenti í dag átta íbúðir í nýju fjölbýlishúsi við Álalæk 5-7 á Selfossi.

„Þetta er sannkallaður gleðidagur. Það er mjög skemmtilegt að afhenda svona margar íbúðir sama daginn og það er líka ánægjulegt að í hópi kaupenda eru að minnsta kosti fimm sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign,“ sagði Halldór Kristján Sigurðsson, fasteignasali hjá Stakfelli, í samtali við sunnlenska.is.

„Hluti þessara kaupenda eru líka nýir íbúar á Selfossi og ég er mjög glaður fyrir þeirra hönd því þetta hverfi verður frábært svæði í framtíðinni, stutt í leikskóla og verið að hefja byggingu grunnskóla. Þannig að þetta verður mjög álitlegur kostur þegar fram í sækir,“ bætir Halldór við.

Alls eru sautján íbúðir í Álalæk 5-7 og segir Halldór að þær séu nánast allar seldar og að eftirspurnin hafi verið mikil.

„Þetta hefur gengið glimrandi vel og við höfum orðið varir við að fasteignamarkaðurinn á Selfossi er mjög líflegur. Það á einnig við um notað húsnæði. Það er mikil eftirspurn eftir íbúðum eins og þessum í Álalæknum, sem eru tveggja til fjögurra herbergja í stærðinni 80 til rúmlega 100 fermetrar,“ segir Halldór en íbúðirnar seljast fullbúnar með vönduðum gólfefnum, innréttingum og uppþvottavél. Kaupendurnir sem fengu afhent í dag fengu blómvönd að auki og gjöf frá Húsasmiðjunni.

Að sögn Halldórs er Stakfell með fleiri nýjar íbúðir á Selfossi á leiðinni í sölu á næstunni.

Fyrri greinUndir áhrifum fimm ólöglegra efna undir stýri
Næsta greinDagbók lögreglu: Rólegheit á rjúpunni