Fastakúnnar með fráhvarfseinkenni

Þóra Þórarinsdóttir, Guðlaug Berglind Björnsdóttir og Alda Sigurðardóttir kveðja viðskiptavini Hannyrðabúðarinnar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hannyrðabúðinni við Eyraveg á Selfossi hefur verið lokað en síðasti opnunardagurinn var í dag. Fastakúnnar kvöddu búðina með tárin í augunum.

Guðlaug Berglind Björnsdóttir stofnaði búðina við Reykjavíkurveg 1 í Hafnarfirði fyrir tæpum 60 árum og rak hana síðar í Garðabæ og svo í Hveragerði um skeið. En fyrir þrettán árum tók dóttir hennar, Alda Sigurðardóttir við rekstrinum ásamt Þóru Þórarinsdóttur og þær opnuðu verslunina við Eyraveg á Selfossi árið 2012.

„Við erum búnar að ákveða það, við Þóra, að nú er rétti tíminn til að hætta. Við vorum auðvitað að halda í vonina að einhver myndi halda þessu gangandi en það hefur ekki tekist ennþá. Búðin er enn til sölu, það vantaði ekki áhugasama kaupendur og það er rosalega mikill áhugi á handavinnu í dag. Við erum með trygga viðskiptavini um allt land, þannig að það er ekki vandamálið,“ sagði Alda í samtali við sunnlenska.is.

Og blaðamaður getur vottað það, verslunin var full af viðskiptavinum í allan dag, það sáust tár á hvarmi og einn þeirra hafði á orði að hann væri með fráhvarfseinkenni vegna lokunarinnar.

„Hannyrðabúðin hefur verið rekin á sömu kennitölunni alla tíð og þetta er síðasta svona alvöru handavinnubúðin á landinu, sú síðasta sem selur í metravöru og það er mikil saga hérna inni, til dæmis í innréttingum sem fylgt hafa búðinni frá upphafi,“ segir Alda og Þóra bætir við að þetta sé búinn að vera mjög ánægjulegur tími.

„Við höfum fundið fyrir gríðarlega mikilli hlýju og þakklæti. Við erum með frábæra viðskiptavini og það er búið að vera mjög mikið að gera síðustu vikur þar sem við efndum til lagersölu. Nú förum við í sumarfrí, Alda fer í golf og ég fer að veiða, við höfum engar áhyggjur af því hvað tekur við,“ segir Þóra og hlær. „Svo erum við alltaf í eftirspurn, ef einhvern vantar eitthvað úr búðinni þá er enn hægt að finna okkur.“

Fyrri greinAusturgarður opnar dyrnar
Næsta greinMikilvægur sigur á heimavelli