FAS fékk menntaverðlaunin

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hlaut Menntaverðlaun Suðurlands 2016 en verðlaunin voru afhent í níunda sinn á hátíðarfundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands í síðustu viku.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi sem um leið er hvatning til frekari dáða. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, veitti verðlaunin.

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hefur unnið markvisst að náttúrufarsrannsóknum með nemendum sínum allt frá árinu 1990. Nemendur skólans kynnast náttúrurannsóknum með vettvangsferðum, mælingum og rannsóknarúrvinnslu. Rannsóknirnar snúa að jökulsporðum, framvindu gróðurs á Skeiðarársandi, viðgangi álftastofns í Lóni og fuglum í fólkvanginum Óslandi á Höfn.

Skólinn er í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands og nemendur öðlast þannig mikilvæga þekkingu á náttúrunni og fá leiðsögn í vísindalegri úrvinnslu sem nýtist áfram í lífinu og frekari námi.

Það er mat úthlutunarnefndar að náttúrurannsóknir skólans eru einstakar á margan hátt og eiga ekki sinn líka á framhaldsskólastigi. Þær eru einstakt framlag til rannsóknarvinnu og kennslu á náttúrunni í nærsamfélagi skólans sem nýtist m.a. nemendum, fræðasamfélaginu og sögu lands og náttúru á Íslandi. Nánari upplýsingar um náttúrufarsrannsóknir í FAS má sjá hér.

Alls bárust tíu tilnefningar til verðlaunanna en aðrir tilnefndir voru Leikskólinn Leikholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Jökulmælingar á Sólheimajökli í Hvolsskóla, Foreldrafélag leikskólans Undralands á Flúðum, ART verkefnið á Suðurlandi, Dagur íslenskrar tungu í Hvolsskóla, Kristín Gísladóttir kennari við Þjórsárskóla, Samborg, samtök foreldrafélaga í leik- og grunnskólum Árborgar, Hvolsskóli fyrir nám í hestamennsku í landbúnaðarhéraði og Edda Guðlaug Antonsdóttir, forstöðumaður skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.