Farið fram á framlengt gæsluvarðhald

Kirkjuvegur 18. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur farið fram á framlengt gæsluvarðhald yfir 53 ára gömlum karlmanni sem lögreglan hefur rökstuddan grun um að hafi valdið eldsvoða á Kirkjuvegi 18 á Selfossi í síðustu viku þar sem karl og kona létust.

Dómari tók sér frest til kl. 11:30 á morgun til að kveða upp úrskurð um kröfuna en hún er gerð á grundvelli almannahagsmuna. Farið er fram á gæsluvarðhald til 29. nóvember næstkomandi.

Í gær felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðhald yfir konu sem grunuð er um aðild að málinu og afplánar hún nú fangelsisrefsingu vegna eldri dóms.  Í tilkynningu frá lögreglu segir að konan hafi stöðu sakbornings í málinu og verður hún yfirheyrð að nýju á morgun um það.
Fyrri greinKatrín og Hanna með stórleik í fyrsta sigri Selfoss
Næsta greinStefnt að bættu fjarskiptasambandi í Þrengslunum