Farið fram á farbann vegna kannabisræktunar

Lögreglumenn skoða kannabisplöntur. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi hefur gert kröfu fyrir Héraðsdómi Suðurlands um farbann yfir litháískum karlmanni fæddum 1973 eftir að lögreglumenn handtóku hann á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu í gærmorgun.

Þar vann hann að ræktun kannabisplantna í töluverðu magni. Um er að ræða á fjórða tug fullvaxinna plantna og töluverðs magns af græðlingum. Maðurinn hefur kannast við að eiga ræktunina sjálfur.

Ræktunin var vel búin og unnt fylgjast með henni og húsinu þar sem hún fór fram með netmyndavélum úr fjarlægð.

Dómari tók sér frest til fyrramáls til að úrskurða um kröfu lögreglu og verður maðurinn í haldi lögreglu fram að uppkvaðningu úrskurðarins. Maðurinn er búsettur í Litháen.

Fyrri greinHeimildarmyndin Útvörðurinn sýnd í Bíóhúsinu
Næsta greinRannsaka mögulegar flutningsleiðir til landsins