Fannfergi í Flóahreppi

Mikið fannfergi hefur verið í neðri hluta Flóahrepps undanfarnar vikur og nauðsynlegt hefur verið að hreinsa snjó nánast daglega af vegum.

Hamarsvegur og Villingaholtsvegur, svokallaður partavegur, hafa orðið hvað verst úti en þar hefur ófærð skapast í ófá skipti.

Skafrenningur hefur verið mikill meðfram ströndinni og ekki þurft mikið til að ófærð myndist þegar snjóruðningar eru meðfram vegum. Að hluta er þetta vegna veðurskilyrða en að hluta til vegna þess hversu niðurgrafnir þessir vegir eru.

Verklagsreglur vegna sjómoksturs í Flóahreppi eru þær að meginmarkmið snjómoksturs er að koma börnum í skólann á réttum tíma og greiða um leið aksturleiðir þeirra sem þurfa til vinnu. Einnig að tryggja það að mjólkurbílar komist að þeim bæjum þar sem stunduð er mjólkurframleiðsla. Nærumhverfi, s.s. hlöð og styttri afleggjara þurfa íbúar að sjá um sjálfir.

Ekki er mokað þegar veður er þannig að það fenni jafnóðum í för.

Fyrri greinÍtrekuð skemmdarverk í jólagarðinum
Næsta greinSveitarfélagið styrkir Bæjarlíf