Fangi dæmdur í tíu mánaða fangelsi

Héraðsdómur Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fangi á Litla-Hrauni var í síðustu viku dæmdur í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir fjögur brot gegn valdstjórninni.

Þann 12. desember árið 2019 kastaði maðurinn hraðsuðukatli og stól í átt að fjórum fangavörðum og lenti hraðsuðuketillinn í höfði eins fangavarðanna sem marðist og hlaut eymsli á hnakka.

Sama dag hrækti hann í andlit og auga læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hótaði lækninum líkamsmeiðingum. Á HSU hrækti hann einnig í andlit fangavarðar og á lögreglustöðinni á Selfossi hrækti hann á tvo lögreglumenn með þeim afleiðingum að hrákinn fór í andlit og augu þeirra beggja.

Maðurinn viðurkenndi skýlaust brot sín við þingfestingu málsins. Hann hefur margoft áður sætt refsingu, meðal annars þrisvar fyrir ofbeldisbrot og tvívegis fyrir stórfelldar líkamsárásir en einnig fyrir brot gegn valdstjórninni, auðgunarbrot og fíkniefnabrot.

Dómari mildaði refsinguna þar sem verulegur dráttur varð á máli þessu hjá lögreglu og ákæruvaldi, en sem fyrr segir áttu brotin sér stað árið 2019. Einnig lagði verjandi mannsins fram gögn um að maðurinn hefði tekið sig verulega á og mikil breyting hefði orðið á högum hans síðan brotin voru framin.

Maðurinn var því dæmdur í tíu mánaða fangelsi auk þess sem hann þarf að greiða sakar- og lögmannskostnað, samtals tæplega 321 þúsund krónur.

Fyrri greinHeitavatnslaust í Hveragerði á fimmtudag
Næsta greinFramlengt í fyrsta leik Hamars og Selfoss