Fangarnir luku 162 einingum

Á nýliðinni vorönn voru 59 fangar á Litla-Hrauni og Sogni í námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Kennsla fór ýmist fram innan veggja fangelsanna eða í fjarnámi.

FSu hefur haldið úti kennslu á Litla Hrauni og á Sogni undanfarin ár en samtals sinntu átta kennarar frá skólanum staðbundinni kennslu í fangelsunum auk kennslustjóra og náms- og starfsráðgjafa í fangelsum. Fleiri kennarar komu að fjarnáminu.

Af þeim 46 nemendum, sem innrituðust í eitthvert nám á vegum FSu á Litla-Hrauni, luku 22 nemendur samtals 96 einingum af þeirri 101, sem þeir lögðu undir.

Á Sogni voru samtals 13 nemendur innritaðir í eitthvert nám á vegum FSu og þar var lokið samtals 66 einingum, en þrír þeirra nemenda, sem þar höfðu innritast, luku engum prófum.

Almennt var námsárangur góður hjá þeim sem luku áföngum.

Þetta kom fram í annarannál Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara, við brautskráningu nemenda í FSu síðastliðinn föstudag.

Fyrri greinBrynja dúxaði í FSu
Næsta grein36 stúdentar brautskráðir