Fangar smíða bekki úr jólatrjám

Fangar á Litla-Hrauni smíða nú bekki fyrir sveitarfélagið Árborg sem unnir eru úr trjám í sveitarfélaginu.

„Þetta er það sem við köllum sjálfbæra þróun. Trén fáum við gefins en þau eru felld í heimagörðum á Selfossi og notuð sem jólatré í desember. Síðan eru þau tekin niður, uppgreinuð og ristuð. Greinarnar eru kurlaðar og kurlið notað í göngustíga en úr bolnum eru smíðuð bekkir og borð,“ segir Siggeir Ingólfsson, yfirverkstjóri hjá umhverfisdeild sveitarfélagsins.

Hann er ánægður með vinnubrögðin á Litla-Hrauni og áætlar að í sumar verði smíðaðir einir tíu bekkir sem dreift verður víða um sveitarfélagið. Bekkirnir eru með háum fótum sem eru niðurgrafnir þannig að þjófar og spellvirkjar eiga ekki auðvelt með að láta þá hverfa.

„Þetta hentar vel í útjaðrana en kannski ekki við aðalgöturnar. Svo getur fólk gengið á kurlinu og tyllt sér á bekkina og horft á trén sem eiga eftir að verða að bekkjum og borðum,“ segir Siggeir kampakátur að lokum.