Fánaþjófur slapp af Hrauninu

Fangi á Litla Hrauni klifraði í gær yfir fangelsisgirðinguna, fór að heimilum tveggja fangavarða skammt frá fangelsinu og stal tveimur fánum sem blöktu þar við hún.

Til mannsins sást þegar hann fór yfir girðinguna og var hann gripinn í þann mund sem hann tók seinni fánann niður en um var að ræða íslenska og sænska fánann sem flaggað var við sitthvort íbúðarhúsið.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur þessi sami fangi áður náð að klifra yfir girðinguna en hann var í útivist þegar atvikið átti sér stað.

Á vef RÚV kemur fram að maðurinn sé utangarðsmaður og óvíst hvort fangelsi sé réttur staður fyrir hann. Auk þessa fanga eru nú á Litla Hrauni nokkrir aðrir fangar, sem flokkast, eða ættu að vera flokkaðir, sem andlega vanheilir og hafa verið fluttir í fangelsið af geðsjúkrahúsum. Þeir hafa samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV, ýmist verið úrskurðaðir sakhæfir eða ósakhæfir í réttarkerfinu, og hafa sumir verið árum saman á geðdeild.