Falsaði „2018“ á númerið á óskoðuðum bíl

Lögreglan á Suðurlandi kærði þrjá ökumenn fyrir ölvun við akstur í síðustu viku, þrjá fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 55 fyrir hraðakstur.

Fimm umráðamenn ökutækja voru kærðir fyrir að vera með ótryggð ökutæki í umferð og einn þeirra var að auki kærður fyrir skjalafals. Hann er grunaður um að hafa sett skoðunarmiða með ártalinu 2018 á skráningarnúmerin, en bíllinn hafði síðast verið skoðaður í byrjun árs 2015.

Umferðardeild lögreglunnar á Suðurlandi var á ferðinni vítt og breitt um umdæmið í vikunni. Þess deildarinnar er fyrst og fremst að fylgjast með stærð og þyngd ökutækja, hvíldartíma ökumanna, leyfismálum er snúa að rekstri ökutækja sem og að sinna öðrum umferðarlagabrotum sem hún verður vitni að svo sem hraðakstur og ölvunarakstur.

Nú er liðið eitt ár frá því lögreglustjórinn á Suðurlandi tók við þessum hluta hluta starfseminnar sem snýr að Suðurlandi og Suðvesturhluta landsins og segir lögreglan að reynslan af verkefninu sé mjög góð. Meðal annars vegna þess að lögreglumennirnir vinna verkefnið frá upphafi brots í hendur ákæruvalds.