Fallegustu garðarnir verðlaunaðir

Garðarnir í Lyngheiði 1, Kambahrauni 51 og Varmahlíð 16 voru valdir fallegustu garðarnir í Hveragerði í ár og Dvalar- og hjúkrunarheimilið Ás fékk verðlaun fyrir fallegustu fyrirtækjalóðina.

Verðlaunin voru veitt á Blómum í bæ um síðustu helgi.

Lyngheiði 1. Pétur Reynisson og Áslaug Einarsdóttir.
Pétur og Áslaug hafa hlotið ýmis verðlaun fyrir garðinn sinn á undanförnum árum. Garðurinn er sannkallaður lystigarður og er það einstök upplifun að koma inn í þennan gróna garð vitandi að allt umhverfis hann eru götur sem maður verður ekki var við. Garðurinn hefur til að bera mikinn fjölda fjölbreyttra gróðurtegunda, vel og skemmtilega klippt limgerði og einstaklega gott skipulag miðað við stærð lóðar.

Kambahraun 51. Gísli Tómasson og Heiða Margrét Guðmundsdóttir.
Garðurinn er dæmi um mjög skemmtilegar endurbætur á lóð í gömlu hverfi. Þar ber á að líta einstaklega vel útfærða hellulögn þar sem stuðlabergi hefur verið bætt inn í umhverfið á skemmtilegan hátt. Vel og snyrtilega útbúinn matjurtargarður. Einstaklega góður frágangur lóðar að opnu svæði Hamarsins og síðast en ekki síst silungasýki sem næstum er hægt að fullyrða að á sér enga hliðstæðu hér í nálægum byggðum.

Varmahlíð 16. Ásgeir Karlsson.
Þetta er garður sem hefur verið til fyrirmyndar í áratugi. Það er sérstaklega skemmtilegt að sonur Rannveigar og Karls sem lögðu grunninn að þessum garði skuli halda minningu þeirra jafn fallega á lofti og þarna er gert. Lóðin er öll haganlega skipulögð með fallegum og snyrtilegum beðum og hefur hluti þeirra verið hlaðinn. Það er töluvert úrval af fjölærum plöntum í garðinum sem gaman er að skoða. Það vekur líka eftirtekt að Ásgeir hefur ekki einungis sinnt sinni eigin lóð af mikilli natni heldur hefur hann reynt að snyrta aðliggjandi lóð. Það sést að Ásgeiri er umhugað um umhverfi sitt og lætur sitt ekki eftir liggja í því og er til eftirbreytni fyrir okkur hin hér í bæjarfélaginu.

Fallegasta lóðin við fyrirtæki – Dvalar og hjúkrunarheimilið Ás
Dvalarheimilið á fjöldi lóða í miðbæ Hveragerðis sem allar eru til fyrirmyndar, snyrtilegar og vel hirtar. Þar geta heimilismenn jafnt sem bæjarbúar notið útivistar í yndislegu umhverfi. Það má segja að umhverfi Áss sé vin í miðbæ bæjarins, Hvergerðingum öllum til yndisauka. Er það trú okkar að gróður og fallegt umhverfi hafi mannbætandi áhrif og sé gott fyrir andlega líðan og því er mikilvægt að stofnun af þessu tagi hugi vel að sínu umhverfi eins og Ás gerir íbúum sínum til heilla.

Fyrri greinVatnsbúskapur Landsvirkjunar fer vel af stað
Næsta greinStokkseyri og Árborg kræktu í stig