Fallegasta peysan kom frá Gallerý Gimli

Síðastliðinn föstudag voru veitt verðlaun í fimm flokkum fyrir Jólapeysuna, sem er fjáröflunarátak Barnaheilla. Fallegasta peysan reyndist koma frá Gallerý Gimli á Stokkseyri.

Jóhanna Elín Þórðardóttir tók við verðlaununum fyrir hönd Gallerý Gimli en nokkrar handverkskonur við ströndina komu að því verki að prjóna peysuna sem er einstaklega glæsileg.

Í umsögn dómnefndar um fallegustu peysuna segir að jólapeysan frá Gallerý Gimli sé einstaklega falleg, framleidd af smekkvísi auk þess sem góður hugur skín í gegn og lýsir stemningu, hópefli, frumleika og hvatningu til að leggja góðu málefni lið. Peysa sem allir gætu verið stoltir af að klæðast.

Auk þess að verðlauna fallegustu peysuna voru veitt verðlaun fyrir ljótustu peysuna, frumlegustu peysuna, bestu glamúrpeysuna og bestu nördapeysuna.

Dómnefnd valdi úr innsendum myndum einstaklinga og hópa á jolapeysan.is og Facebook- og Instagram síðum átaksins. Formaður dómnefndar er lífskúntsnerinn Beggi (Guðbergur Garðarsson) en í dómnefndinni sátu einnig Pacas Inacio, Ylfa Úlfsdóttir Grönvold, fatahönnuður og ungmennin Andri Snær Egilsson og Berglind Egilsdóttir sem afhentu verðlaunin.

Jólapeysan er fjáröflunarátak Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, en á áheitavefnum jolapeysan.is er hægt að heita á peysur eða einstaklinga. Söfnunin stendur til áramóta en einnig er hægt að styðja starf samtakanna með því að senda sms með textanum „jol“ í síma 903 1510/20/50 fyrir 1.000, 2.000 eða 5.000 krónur.

Hluti söfnunarinnar rennur til verkefnis sem Barnaheill vinna nú að og snýr að barnafátækt á Íslandi og vitundarvakningu um stöðu barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun.

Fyrri greinBarbara Guðna: Frábær árangur nemenda í Þorlákshöfn
Næsta greinAlelda hús í Suður-Hvammi