Fallega greiddir og vel upplýstir Sunnlendingar

Góð sala hefur verið á bókum í Sunnlenska bókakaffinu fyrir jólin sem og á árinu öllu. Vinsælustu íslensku skáldverkin eru Mensalder eftir Bjarna Harðarson, Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur og Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur.

Allar þessar bækur hafa fengið góða dóma og í Mensalder og Ljósmóðurinni er sögusviðið sunnlenskt og höfðar því enn frekar til lesanda á Suðurlandi.

Í ævisögum á Gísli á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur vinninginn og Elly (um Elly Vilhjálms) eftir Margréti Blöndal fylgir fast á eftir. Núna á allra síðustu dögum hefur salan á Appelsínum frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson tekið góðan sölukipp.

Limrubókin í samantekt Péturs Blöndals blaðamanns er tvímælalaust söluhæsta ljóðbókin og textar Megasar frá 1966-2011 hafa verið vinsælir, en eru því miður uppseldir hjá útgefanda.

Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson er vinsælasta barnabókin í ár, enda margverðlaunuð. Reisubók Ólafíu Arndísar eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur er sömuleiðis vinsæl, en hún er uppseld hjá útgefanda. Sunnlenska barnabókin Kattasamsærið eftir Guðmund Brynjólfsson er vinsæl bók, en Guðmundur býr á Eyrarbakka og Suðurland er því hans heimasvæði.

Í þýddum bókum hefur Hungurleikaserían eftir Suzanne Collins vinninginn yfir árið, aðrar vinsælar bækur eru Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry eftir Rachel Joyce og Englasmiðurinn eftir Camillu Läckberg. Fyrir jólin Í hafa Krúnuleikar eftir George R.R. Martin verið vinsælasta þýdda bókin.

Að lokum má geta þess að Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur er vinsælasta matreiðslubók ársins og bókin Hárið eftir Theodóru Mjöll er vinsælasta bókin í flokki bóka almenns efnis. Þá er Almanak HÍ (eða háskólans) alltaf sívinsælt. Því má ætla að Sunnlendingar borði í framtíðinni hollari mat og að þeir gangi á nýju ári um bæinn með fallega greitt hár og séu vel upplýstir um sjávarföll við strendur landins.

Fyrri greinHafið nesti og teppi með í bílnum
Næsta greinSkaftárhreppi synjað um undanþágu