Falleg fjölskyldu- og bæjarhátíð

Bessi lofar góðri stemningu og góðu veðri á Flúðum um Versló. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hátíðin Flúðir um Versló verður haldin í tíunda skipti nú um helgina. Bessi Theodórsson, verkefnastjóri hátíðarinnar, á von á því að sex til tíu þúsund manns heimsæki Flúðir um helgina.

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir helginni. Ég er merkilega slakur, enda er þetta líka í tíunda skipti sem við gerum þetta, þannig að hlutirnir eru komnir í svona þokkalegt form. Það eru ótrúlega margir heimamenn með mér í þessu og það vita einhvern veginn allir hvað þeir eiga að gera,“ segir Bessi í samtali við sunnlenska.is.

Bessi segir að eðlilega spái hann í veðurspánni eins og aðrir. „Þó að það sé spáð gulri viðvörun annars staðar á landinu þá eru einhvern veginn Flúðir alltaf einhvers konar paradís hvað varðar veður. Þegar það er verið að spá 15-16 metrum alls staðar annars staðar þá erum við í 2-3 metrum, þannig að við eigum svona frekar von á því að það verði fínt veður. Það verður allavega hlýtt og enginn vindur. Þó að það rigni kannski örlítið þá verður bara að hafa það,“ segir Bessi bjartsýnn.

Mikið af furðulegum vélum
Bessi er stoltur af dagskrá hátíðarinnar í ár. „Dagskráin er fín þó að ég segi sjálfur frá. Við byrjuðum á því í fyrra að vera með sláttutraktorarallý, sem er svona litli bróðir traktoratorfærunnar en miðað við hvernig þetta var í fyrra og hvernig skráningin er í ár þá held ég að sláttutraktorarallýið verði á einhverjum tímapunkti orðinn stóri bróðir traktoratorfærunnar. Þetta er ótrúlega skemmtilegt rugl og mikið af furðulegum vélum og búið að breyta þeim á allan hátt.“

Frá traktoratorfærunni í fyrra. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

„Aðal dagurinn er laugardagurinn þó að dagskráin hafi hafist í gær með tónleikum. Ljótu hálfvitarnir eru með tónleika í kvöld og á laugardagskvöld og við hvetjum alla til að fara inn á Flúðir um Versló og ná sér í miða. Svo erum við með dansleiki laugardags- og sunnudagkvöld. Það eru Helgi Björns, Salka Sól og Reiðmenn vindanna á laugardegi og Skítamórall, Klara Einars og Dj Anna Ármann á sunnudagskvöldið.“ 

„Á laugardeginum erum við með barna- og fjölskylduskemmtun við félagsheimilið frá hádegi. Þar mæta Ágúst úr Söngvakeppninni, BMX brós, Ingó töframaður og fleiri. Einnig er fjölskyldudagskrá á sunnudeginum. Fallegasti viðburður í heimi, furðubátakeppnin, er svo á sunnudeginum klukkan þrjú og Brekkusöngurinn er svo eins og vant er í Torfdal á sunnudagskvöld. Hér munu allir að finna eitthvað við sitt hæfi um helgina.“

Hátíð sem kostar ekki handlegginn
Bessi segir að laugardagurinn sé alltaf stærstur. „Það er auðvitað takmarkað pláss á tjaldsvæðinu hér en fólk er að koma og fara á laugardeginum. Við höfum verið með ótrúlegan fjölda hérna. Það hafa verið á milli sex og tíu þúsund manns hérna á laugardeginum en auðvitað er gríðarlega mikið af fallegu fólki sem er hérna alla helgina.“

„Mér þykir mjög vænt um það að geta haft svona mikið frítt. Það hefur alltaf verið markmið mitt að fólk geti komið hingað og þurfi ekki að taka upp veskið í hverju skrefi. Allir þessir viðburðir á daginn eru fríir. Eina sem er borgað inn á eru tónleikarnir og dansleikir í félagsheimilinu. Auðvitað kaupir þú þér candy floss og miða í hoppukastala en fólk getur skemmt sér hér án þess að það kosti handlegg og mér þykir voða vænt um það.“

Bessi Theodórsson. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Glaðir og þægir gestir
Aðspurður hvaða viðburður á hátíðinni sé í uppáhaldi hjá Bessa segir hann svarið ekki vera einfalt. „Mér finnst furðubátakeppnin æðisleg og á móti finnst mér traktoratorfæran og núna sláttutraktorarallýið svona geðsýkis fallegt ef það er til.“ 

„Fyrst og fremst finnst mér gaman hvað gestirnir okkar undanfarin ár hafa verið glaðir og þægir. Það hefur allt gengið svo vel. Við erum náttúrulega með viðbragðsaðila, sjúkrabílar, lögreglu, björgunarsveitir og gæslu og annað slíkt en það hefur ekkert komið upp á og þannig viljum við hafa það. Þetta er falleg fjölskyldu- og bæjarhátíð fyrir fjölskylduna.“ 

„Það ættu allir að geta komið og verið saman. Böllin eru búin hjá okkur klukkan tvö og það er ekkert verið að djamma fram undir morgun, þannig að þú ættir alveg að geta tekið ball og vaknað samt um morguninn og farið á fjölskylduskemmtun með börnunum. Ég vil að það komi sem flestir í sólina og blíðuna á Flúðum og skemmti sér fallega með okkur og búi til fallegar minningar og jafnvel mögulega kjarnaminningar,“ segir Bessi hress að lokum.

Fyrri greinÓskað eftir rómantískum athugasemdum
Næsta greinBorðar einn lítra af ís á viku