Falla frá notkun sorpbrennsluofns

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hyggst kaupa varmadælukerfi til hitunar skólahúsnæðis, íþróttahúss og sundlaugar á Kirkjubæjarklaustri í ljósi þess hve kostnaðarsamt er að koma upp nýjum búnaði í sorpbrennslustöðinni sem stenst nýlega reglugerð um brennslustöðvar.

Líkur eru til þess að meira hagræði felist í að fjárfesta í varmadælum sem hámarka nýtingu rafmagns til kyndingarinnar. Samkvæmt úttekt sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir sveitarstjórn má reikna með að slíkur búnaður kosti um 47 milljónir króna.

Aðspurð um fjármögnun á kaupunum segir Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri það verða leyst. Rekstur sveitarsjóðs skilaði afgangi upp á liðlega 2,2 milljónir króna í fyrra og því ekki mikið svigrúm til skuldsetningar að sögn hennar.

„Á móti kemur að við lækkum rafmagnskostnað með þessum hætti miðað við það sem verið hefur undanfarin misseri.“

Eygló segir að vissulega hefði nýr brennsluofn verið þeirra fyrsti kostur en strangar reglur um símælibúnað, sem kostar 50 milljónir króna, gera þann kost ekki vænlegan. „Við gátum fengið nýjan ofn og hreinsibúnað fyrir 50 milljónir króna, en að borga aðrar 50 milljónir fyrir mælibúnað er einfaldlega of mikið,“ segir Eygló.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinLeitað að munum á Landsmótssýningu
Næsta greinHrós dagsins . . .