Fáklæddar Jórur safna fyrir Ítalíuferð

Helga Guðrún Lárusdóttir, söngkona með meiru. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Jórukórinn á Selfossi hefur sent frá sér dagatal fyrir árið 2026 sem inniheldur myndir af fáklæddum Jórum.

„Okkur vantaði pening fyrir Ítalíuferð sem við erum að fara í á næsta ári en mér finnst það svo mikið aukaatriði því að þetta er búið að vera svo magnað hópefli,“ segir kórfélaginn Helga Guðrún Lárusdóttir, sem átti hugmyndina að dagatalinu.

„Þetta var svo valdeflandi, fyrir konur af öllum stærðum og gerðum, að taka að sér þessi fyrirsætustörf. Ég er svo þakklát þeim fyrir að hafa treyst mér fyrir þessu því þetta er ótrúlega berskjaldandi, þær voru allar berrassaðar í tökunum og treystu því að ég myndi fara vel með myndirnar af þeim.“

Innblásin af kvikmyndinni Calendar Girls
Helga Guðrún segir að þær hafi verið með allskonar hugmyndir að fjáröflunum og hún hafi velt því fyrir hvað hún gæti gert sjálf.

„Ég kann að taka myndir og hef gert það í einhver ár. Bíómyndin Calendar Girls veitti mér innblástur að þessu dagatali,“ segir Helga Guðrún og vísar þar í kvikmyndina Calendar Girls frá árinu 2003 sem fjallar um ósköp venjulegar konur sem ákveða að gera nektardagatal í fjáröflunarskyni.

„Ég fékk ótrúlega góðan meðbyr við þessari hugmynd strax í upphafi. Ég fékk eiginlega meiri meðbyr innan kórsins en ég reiknaði með. Ólíklegustu konum fannst ekkert mál að vippa sér úr fötunum og skella sér í skrítnustu stellingar til að gera þetta að veruleika,“ segir Helga Guðrún og bætir því við að einhverjar kórkvennanna hafi ekki verið með í myndatökunni en þær hafi þá aðstoðað við gerð dagatalsins með öðrum hætti. „Elín María Halldórsdóttir og Silja Runólfsdóttir hafi verið algjörir burðarstólpar þegar kom að framkvæmdastjórn verkefnisins.“

Konur eru konum bestar
Það tók rúman mánuð að fullgera dagatalið en hægt er að nálgast það á jorukorinn.is. Frí heimsending er fyrir Hveragerði, Selfoss og nágrenni. „Svo má búast við að kórkonur poppi upp á ótrúlegustu stöðum og í fyrirtækjum fyrir jólin til að selja dagatalið,“ segir Helga Guðrún.

„Mér þykir ótrúlega vænt um það sem við gerðum fyrir bleikan október og Mottumars. Það var alveg gæsahúðarmóment og tár í augun fyrir mig þegar októberstelpurnar stóðu þarna saman, önnur enn með tússinn á maganum eftir geislameðferð og þær báðar búnar að sigrast á krabbameini. Mér finnst svo geggjað að þær hafi verið til í þetta og ég verð þeim ævinlega þakklát fyrir það,“ segir Helga Guðrún en þess má geta hver mánuður í dagatalinu hefur sitt þema.

Hver mánuður hefur sitt þema. Ljósmynd/Aðsend

„Það var ótrúlega góð samstaða innan kórsins með þetta verkefni. Þær eru svo geggjaðar, ég á bara ekki til orð. Konur eru konum bestar og við fundum það mjög vel á meðan á þessu stóð,“ segir Helga Guðrún að lokum.

Í Jórukórnum eru 63 konur á öllum aldri sem eiga það sameiginlegt að finnast gaman að syngja. Kórinn verður 30 ára á næsta ári og af því tilefni ætla Jórurnar að skella sér í fyrrnefnda Ítalíuferð, þar sem verður sungið og trallað eins og þeim einum er lagið.

Fyrri greinKaren ráðin deildarstjóri fjármála- og stjórnsýslu