Fákasel opnar á ný

Rekstraraðilar veitingastaðarins eru þau Sindri Daði Rafnsson og Írís Dröfn Kristjánsdóttir sem áður ráku Sindra bakarí á Flúðum. Ljósmynd/Aðsend

Fákasel í Ölfusi hefur opnað á nýjan leik en þar er glæsilegur veitingastaður með nýjan fjölbreyttan matseðil. Daglega verður boðið upp á stuttar hestasýningar í reiðhöllinni.

Rekstraraðilar veitingastaðarins eru þau Sindri Daði Rafnsson og Írís Dröfn Kristjánsdóttir sem áður ráku Sindra bakarí á Flúðum við góðan orðstír.  Þau hafa nú þegar opnað veitingastaðinn sem tekur um 80 manns í sæti auk þess sem nýr og glæsilegur 160 manna veislusalur hefur verið tekinn í notkun fyrir stærri hópa og einkasamkvæmi.

Í reiðhöllinni verða daglega 15 mínútna hestasýningar.  Það eru þau Agnes Hekla Árnadóttir og Högni Freyr Kristínarson sem hafa veg og vanda að sýningum á íslenska hestinum og gangtegundum hans.  Þau leggja áherslu á spennandi upplifun áhorfenda þar sem þau sýna fjölbreytta hesta í einstakri ljósadýrð með 40 metra skjá í bakgrunni með lifandi náttúrmyndum.

Hestasýningarnar eru ætlaðar ferðamönnum og öðrum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér íslenska hestinn.  Sýningar verða daglega klukkan 17:15 en einnig verður hægt bóka sérstakar sýningar fyrir stærri hópa.

Fyrri grein„Rautt skal það vera“
Næsta grein„Mórallinn mjög góður“