Fáir á tjaldsvæðum í nótt

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglumenn á Suðurlandi fóru í gærkvöldi og í nótt í eftirlitsferðir á ýmis tjaldstæði í umdæminu. Fátt var á flestum þeirra enda veðurspá fyrir daginn í dag ekki kræsileg og að auki höfðu margir umsjónarmenn tjaldsvæða þá þegar gripið til takmarkana og lokana vegna hertra samkomutakmarkana.

Með í eftirlitsferðunum var fíkniefnaleitarhundur frá fangelsismálastofnun sem verður á ferðinni á Suðurlandi um helgina ásamt þjálfara sínum. Leit með honum skilaði engu í nótt og segir lögreglan að það verði að teljast frábærar fréttir.

Lögreglan hvetur þá sem eru á ferðinni til að fara varlega, virða hámarkshraða og aka ekki eftir að hafa neytt áfengis. Gæta jafnframt að sér að fara ekki of snemma af stað á bílnum eftir skemmtun næturinnar og vera að öðru leiti til fyrirmyndar nú sem endra nær. Þá er rétt að fylgjast með veðurspá, sérstaklega ef verið er með hjólhýsi eða húsbíla í umferðinni. Og að lokum, Við erum öll almannavarnir.