Fáheyrð tíðindi í Flóanum

Á tímabilinu frá því um miðjan apríl til miðjan maí síðastliðinn var brotist inn í sumarbústað í landi Efra-Sýrlæks í Flóa.

Þaðan var stolið nýlegum Simens ísskáp, hjónarúmi, búsáhöldum og karlmannsfatnaði. Þjófarnir brutu sér leið með því að spenna upp útihurð.

Það er afar fátítt að brotist sé inn í sumarbústaði í Flóanum þó þar hafi eitt frægasta rán Íslandssögunnar átt sér stað sjálft Kambsránið fyrir 185 árum síðan.

Lögreglan gerir ráð fyrir að þjófarnir hafi verið á sæmilega stórum sendibíl. Þeir sem hafa upplýsingar um málið eru beðnir um að snúa sér til Selfosslögreglunnar í síma 480-1010.