Fagna skatta- og tollalækkunum

Stjórn Hersis, félags ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, lýsir yfir ánægju með ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi nú á dögunum.

Þar lýsti Bjarni áformum um áframhaldandi skattalækkanir, einföldun á skattkerfinu og afnámi vörugjalda á öllum flokkum nema bifreiðum, eldsneyti, áfengi og tóbaki.

Í tilkynningu frá félaginu segir að það vilji að gengið verði enn lengra og vörugjöld afnumin með öllu og spyr hvað réttlætir vörugjöld á þessa tilteknu flokka frekar en hina. Vörugjöld og háar álögur á áfengi og tóbak eru dæmi um það hvernig ríkið reynir að stjórna neyslu með skattlagningu en Hersir telur það fásinnu að ríkið grípi með slíkum hætti inn í líf fólks.

Vill stjórn félagsins benda á að háar álögur og þar af leiðandi hærra verð á áfengi og tóbaki er ein af ástæðum þess að ungt fólk leitar frekar eftir öðrum vímuefnum, t.d. kannabis. Aukin kannabisneysla er ein afleiðing ofurskattlagningar á þessa vöruflokka. Að lokum vill stjórn Hersis benda á að enginn skattur er sjálfsagður, því skattar eru sóttir í verðmæti, sem einstaklingar skapa, en ekki ríkið.