Færðu ungabarni þurrmjólk á snjóbíl

Snjóbíll Björgunarfélags Árborgar fyrir utan sjúkrahúsið á Selfossi í gær. Ljósmynd/BFÁ

Það var mikið annríki hjá viðbragðsaðilum í gær vegna óveðursins sem gekk yfir Suðurland. Fyrstu útköll tóku að berast á laugardagskvöld og ekkert lát var á verkefnum fram yfir miðnætti aðfaranótt mánudags.

„Við vorum alveg að drukkna í verkefnum á tímabili. Það skýrist líka af COVID-19 sem minnkar viðbragðsgetuna okkar þar sem viðbragðshópar eru aðskildir, nema í algjörri neyð,“ segir Viðar Arason, í svæðisstjórn björgunarsveita, í samtali við sunnlenska.is.

„Við fengum hins vegar góða hjálp frá Suðurlandsdeild Ferðaklúbbsins 4×4 sem eiga miklar þakkir skildar fyrir veitta aðstoð í þessum aðgerðum. Það var virkilega gott að fá þeirra hjálp.“

Björgunarfélag Árborgar í útkalli í gær. Ljósmynd/BFÁ

Björgunarsveitir aðstoðuðu meðal annars sjúkraflutninga HSU, heimaþjónustu Árborgar og fluttuheilbrigðisstarfsfólk til og frá vinnu auk þess að koma lyfjum til veikra og fleira. Viðar segir hins vegar að mest gefandi verkefni dagsins hafi verið að koma þurrmjólk til ungabarns í Grímsnesinu.

„Þar var fjölskylda innilokuð með börn og 4 mánaða dreng og móðirin hafði ekki haft tök á að fara út vegna COVID-19. Það þurfti mikið breyttan jeppa og snjóbíl til þess að koma þurrmjólkinni til hans, en þetta er örugglega skemmtilegasta verkefni sem ég hef þurft að taka þátt í að skipuleggja. Mjólkin skilaði sér í sveitina og litli maðurinn sofnaði sáttur,“ sagði Viðar ánægður með árangurinn.

Viðar bendir á að það sé ósk viðbragðsaðila að fólk haldi sig heima um páskana. Þeir verði vitanlega á vaktinni en fólk sé eindregið hvatt til þess að létta álaginu af viðbragðsaðilum og haldi sig heima.

Fyrri greinFlestar leiðir greiðfærar
Næsta greinHandboltavertíðinni aflýst – Engir Íslandsmeistarar krýndir