Færanlegar skólastofur fluttar á Eyrarbakka

Starfsmenn JÁVERK sáu um flutninginn á skólastofunum tveimur og gekk sú vinna vel fyrir sig. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Í gær voru tvær færanlegar skólastofur fluttar frá Stekkjaskóla á Selfossi yfir í Barnaskólann á Eyrarbakka þar sem þær verða tengdar við núverandi skólahúsnæði á Bakkanum.

Stofurnar voru síðast notaðar undir skóladagvistun Stekkjaskóla en hún hefur nú færst inn í aðalbyggingu skólans.

Tvær stakar stofur til viðbótar verða á næsta ári fluttar í Norðurhóla, gegnt Sunnulækjarskóla, þar sem Skátafélagið Fossbúar mun fá nýja aðstöðu. Nú er leikskólinn Jötunheimar með fjórar deildir í stofunum við Stekkjaskóla og verða þær áfram þar.

Skólastofurnar sem fluttar voru á Eyrarbakka verða nýttar undir unglingastig BES. Bæjarráð Árborgar samþykkti í sumar viðauka vegna þessara húsnæðisbreytinga upp á 60 milljónir króna, fyrir flutninginn á stofunum og kostnaði við tengibyggingu við núverandi húsnæði.

Fyrri greinLoksins!
Næsta greinGul viðvörun: Austan stormur í fyrramálið