Fá jarðskjálftatilkynningar með SMS og tölvupósti

Síminn og Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi endurnýjuðu á dögunum samning um umsjón og rekstur þráðlausra fjarskipta fyrir mælanet.

Samningurinn er gerður í beinu framhaldi af afar árangursríku samstarfi í tengslum við þráðlaus fjarskipti ICEARRAY mælanetsins í Hveragerði sem Benedikt Halldórsson, rannsóknardósent, og Ragnar Sigbjörnsson, forstöðumaður, standa að og settu upp árið 2007. Með samningnum er rekstrargrundvöllur fjarskiptanna tryggður næstu árin. Það hefur mikla þýðingu fyrir mælanetið í Hveragerði, sem og nýtt mælanet sömu tegundar sem sett hefur verið upp á Húsavík á jarðskjálftabelti Norðurlands.

Þessi mælanet í þéttbýli eru nýjasti vaxtarsprotinn hjá Jarðskjálftamiðstöðinni. Tilgangur þeirra er að meta breytileika jarðskjálftaáhrifa innan þéttbýlis. Þráðlaus fjarskipti eru forsenda slíkra neta, sem eru sérstaklega gagnleg í almannavörnum. Þannig láta mælarnir starfsmenn Rannsóknarmiðstöðvarinnar vita um leið með SMS og tölvupósti þegar jarðskjálfti á sér stað og senda einnig upplýsingar um stærð jarðskjálftans og áhrif hans á byggingar.

Til glöggvunar skal tekið fram að hröðunarmælar Rannsóknarmiðstöðvarinnar eru ólíkir hefðbundnum jarðskjálftamælum að því leiti að þeir fyrrnefndu gefa beinar upplýsingar um þá áraun sem byggingar verða fyrir í jarðskjálftum. Hröðunarmælingar nýtast því jafnt við rannsóknir á eðli og orsökum jarðskjálfta sem og rannsóknir á áhrifum þeirra á byggingar og samfélagið í heild.

Verkfræðingar við Jarðskjálftamiðstöðina vinna stöðugt að úrvinnslu mælinga. Fyrir utan fasta starfsmenn svo og samstarfsaðila erlendis, þá eru gögnin m.a. nýtt sem rannsóknarefni fyrir doktorsnema og meistaranema, ásamt gestaprófessorum sem starfa hjá Jarðskjálftamiðstöðinni. Mælingarnar eru því einn helsti hornsteinn í starfsemi Jarðskjálftamiðstöðvarinnar, sem og fyrir hönnun mannvirkja á jarðskjálftasvæðum Íslandi.

Fyrri greinTöluvert um hraðakstur í umdæmi Hvolsvallarlöggunnar
Næsta greinSkuggabandið á Kaffi Rós