Færsla yleiningaverksmiðjunnar frá Reykholti til skoðunar

Stjórn Límtrés-Vírnets hf. sem starfrækir límtrésverksmiðju á Flúðum og yleiningaverksmiðju í Reykholti hefur til skoðunar áform um að færa starfsemi einingaverksmiðjunnar frá Reykholti.

Að sögn Stefáns Loga Haraldssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hefur þetta komið upp í tengslum við skoðun á kaupum á nýrri einingalínu. Búnaður sá sem er í Reykholti sé á margan hátt afkastalítill og úreldur og hamlar fyrirtækinu talsvert í samkeppni.

Búið er að skoða hvaða kostir eru í stöðunni og ljóst að með nýrri línu þurfi að fjárfesta í húsnæði. Arðsemisútreikningar segja svo um að heppilegra sé að finna nýrri einingaverksmiðju pláss ýmist í Borgarnesi eða á Flúðum, þar sem talsverð umsvif eru nú þegar.

Stefán segir að búið sé að funda með hreppsnefndum í Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi og Borgarbyggð til kynningar á málinu en engin ákvörðun hafi verið tekin. Þá bendir Stefán á að fyrirtækið eigi húsnæðið í Reykholti og ekkert liggi fyrir um framtíðarhlutverk þess. Mögulega vilji fyrirtækið halda þar áfram einhverskonar starfsemi.

Starfsmenn Límtrés-Vírnets eru 86 talsins en höfuðstöðvar þess eru í Borgarnesi. Starfsmenn í Reykholti eru sjö talsins núna og tólf til þrettán á Flúðum.

Fyrri greinFjórir fengu umhverfisverðlaun
Næsta greinÍ skoðun að ráða ferðamálafulltrúa fyrir lágsveitirnar